02/11/2024

Heiðin í vetrarbúningi

Þrátt fyrir að margir séu farnir að sjá vorið í hyllingum eru margir staðir á Ströndum sem enn eru undir öruggri stjórn Veturs konungs. Einn af þeim stöðum sem sleppa undan stjórn hans seinna en margir aðrir er Steingrímsfjarðarheiði, en hún liggur hæst í 439 m. hæð yfir sjávarmáli. Vegur var lagður um heiðina árið 1984 og tengdi hann Strandir við nágrannabyggðirnar við Djúp.

Marta Sigvaldadóttir, bóndi á Stað í Steingrímsfirði, átti leið um heiðina föstudaginn 25. febrúar og smellti af nokkrum myndum.

Mjög gott veður var þegar Marta tók myndirnar, sól og mikil héla. Logn er þó ekki daglegur viðburður á Steingrímsfjarðarheiði yfir vetrartímann og margar sögur eru til af óförum manna á leið yfir heiðina fyrr á tímum.