22/12/2024

Heiða slappar af

Úrslitakvöld Idol-Stjörnuleitar fer fram í Smáralind í kvöld eins og flestir lesendur vefjarins strandir.saudfjarsetur.is ættu að vita. Stúlkurnar tvær sem eftir eru, Heiða og Hildur Vala, munu hvor um sig flytja þrjú lög; eitt að vali dómnefndar, eitt sem þær velja sjálfar og síðan syngja þær báðar eitt eldra lag eftir Jón Ólafsson, tónlistarstjóra Idol-Stjörnuleitar. Lögin sem Heiða mun flytja í kvöld eru Ég veit þú kemur með Trúbrot og Slappaðu af með Flowers. Lagið sem þær flytja báðar heitir Líf, en Stefán Hilmarsson flutti það á sínum tíma.

Lögin sem Hildur Vala Einarsdóttir mun flytja í kvöld eru The boy who giggled so sweet sem Emilíana Torrini gerði vinsælt og Án þín með Trúbrot. Það er óhætt að segja að þær stúlkur séu hrifnar af Trúbroti, en báðar taka lög með þeirri ágætu hljómsveit.

Auk flutnings þeirra verður mikið um að vera í Smáralind í kvöld því hópurinn sem komst í tíu manna úrslit mun allur stíga á stokk og taka eitt lag og auk þess mun Idol-stjarnan frá því í fyrra, Karl Bjarni Guðmundsson, koma og taka lagið.