26/12/2024

Hársnyrtistofa Heiðu opnaði í dag

Það er ekki á hverjum degi sem nýtt fyrirtæki tekur til starfa á Ströndum, en það gerðist í dag kl. 13:00 þegar Hársnyrtistofa Heiðu tók til starfa. Það er Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir hárgreiðslumeistari frá Drangsnesi sem á og rekur stofuna sem er staðsett í Víkurtúni 2 á Hólmavík. Ragnheiður er nýlega flutt aftur á Strandir eftir að hafa starfað í 16 ár við Hárgreiðslustofu Önnu á Selfossi, en hún er einmitt í eigu annars Drangsnesings, Önnu Guðrúnar Höskuldsdóttur. Þegar fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is leit við í dag var nýbúið að opna stofuna og fyrsti kúnninn, Bjarnveig Ólafsdóttir á Hólmavík, mætt í klippingu, enda á leiðinni á forvarnarball í Borgarnesi í kvöld.

Stofan er smekklega innréttuð og vel tækjum búin og það er greinilegt að mikil og metnaðarfull vinna hefur verið lögð í að gera hana sem glæsilegasta. Auk hársnyrtiþjónustunnar er gott úrval af vörum frá Wella og Sebastian til sölu, þannig að fólk sem er að leita að góðri gjöf getur líka kíkt við hjá Heiðu. Viðtökur heimamanna virðast annars vera góðar því upppantað er á stofunni fyrstu tvo opnunardagana, í dag og á morgun. Opnunartími verður sem hér segir:

Þriðjudagar    13:00-18:00
Miðvikudagar 13:00-18:00
Fimmtudagar   10:00-17:00
Föstudagar    10:00-16:00

Ef fólk hefur ekki tök á því að mæta á opnunartíma eða þarf skyndilega á hvers konar hársnyrtingu að halda; greiðslu, klippingu, þvotti, litun o.s.frv. er alltaf hægt að hringja í Heiðu og athuga með opnun utan auglýsts tíma. Pöntunarsímar eru 482-3219 og 695-5605. 

strandir.saudfjarsetur.is óska Heiðu innilega til hamingju með hársnyrtistofuna og hvetja Strandamenn til að nýta sér þjónustuna vel. Þeir sem eru hárlausir hafa enga afsökun því þeir geta örugglega fengið skallann bónaðan vel og rækilega.

Hárgreiðslustofan opnuð

frettamyndir/2006/580-hargr4.jpg

frettamyndir/2006/350-hargr1.jpg

frettamyndir/2006/350-hargr3.jpg

frettamyndir/2006/350-hargr2.jpg

Ljósm. Arnar S. Jónsson