22/11/2024

Hamingjudagar á Hólmavík

Á fundi Menningarmála-nefndar Hólmavíkurhrepps í gær var farið yfir tillögur sem bárust um nafngift á bæjar- og fjölskylduhátíðina sem fram fer á Hólmavík helgina 1. – 3. júlí nk. Í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjóra hátíðarinnar kemur fram að alls bárust nefndinni um þrjátíu tillögur að nafni frá fjölmörgum áhugasömum einstaklingum. Eftir töluverðar umræður varð Menningarmálanefnd einróma sammála um að velja tillögu Ásdísar Jónsdóttir frá Hólmavík og verður hátíðin hér eftir kynnt og markaðssett undir nafninu Hamingjudagar á Hólmavík.