22/12/2024

Hákarlaverstöðin Gjögur

Á bryggjunni á GjögriGjögur í Árneshreppi, yst við norðanvert mynni Reykjarfjarðar, er fornfræg veiðistöð og ein af perlum Árneshrepps. Hákarlaveiðar voru stundaðar frá Gjögri í miklum mæli á opnum bátum áður fyrr og þar voru fjölmargar verbúðir sem búið var í yfir vertíðina. Á 19. öld voru um tíma gerð út 18 skip samtímis frá Gjögri og voru 7-11 menn í hverri áhöfn. Fyrri hluta 20. aldarinnar voru einnig talsverð umsvif á Gjögri og vísir að þorpi, en nú er svo komið að þar býr enginn lengur allt árið. Þar eru hins vegar nokkrir sumardvalarstaðir, gömul hús og ný. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is smellti af nokkrum myndum á Gjögri á dögunum.

Viti er á Gjögurnesi og var hann reistur árið 1921. Á nesinu fyrir norðan vitann er jarðhiti og heitar uppsprettur eru í klettum við fjörusandinn. Á Gjögri er einnig flugvöllur, en yfir hávetrartímann er flugið eina samgönguleiðin til og frá sveitinni. Þar er sjálfvirk veðurathugunarstöð frá 1994.

Nokkru utan við Gjögur eru Rifsker. Grettissaga hermir að þar hafi Flosi Eiríksson og Kaldbekingar barist um hval og manndráp hlotist af. Varla í eina skiptið sem illdeilur hafa orðið vegna hvalreka á Ströndum
 
Æði fagurt er um að litast á Gjögri og í göngu- og skoðunarferðum gleymist allt hugarangur og amstur hversdagsins. Hinum megin fjarðarins rís Kambur, hátt og rismikið fjall milli Reykjarfjarðar og Veiðileysu.

1

bottom

arneshreppur/580-gjogur5.jpg

arneshreppur/580-gjogur3.jpg

arneshreppur/580-gjogur1.jpg

Á bryggjunni á Gjögri – ljósm. Jón Jónsson