30/10/2024

Háhraðanet í hluta Árneshrepps

Frá því er sagt á fréttavefnum www.litlihjalli.it.is að fyrir stuttu síðan var settur upp fjarskiptabúnaður fyrir háhraðanettengingu í gegnum 3G símakerfið í fjarskiptastöðinni við Reykjaneshyrnu í Árneshreppi. Heimili, fyrirtæki og stofnanir í stórum hluta Árneshrepps eiga því kost á háhraðaneti sem kemur í staðinn fyrir ISDN og ISDN+ tengingar. Samkvæmt fréttavefnum þarf 3G netlykla til að tengjast og eiga menn kost á þremur möguleikum hvað varðar niðurhal og hraða hjá Símanum. Ekki er búið að setja upp búnað á fjarskiptastöðinni við Kjörvog sem þýðir að Djúpavík og Kjörvogur eru ekki komin með þessa þjónustu enn.

Samkvæmt Fjarskiptaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2005-2010 áttu bæir og fyrirtæki í dreifbýli á landinu öllu að njóta háhraðanettengingar fyrir árslok 2007. Starfsmenn Símans munu vera við störf á Ströndum áfram á næstu vikum. Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefði gaman af að birta frekari fréttir um framvindu mála, látið vita á strandir@strandir.saudfjarsetur.is ef þið hafið upplýsingar um frekari tengingar.