Vefnum strandir.saudfjarsetur.is hefur borist fréttatilkynning frá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar sem er svohljóðandi: "Kaupfélag Steingrímsfjarðar hefur í meir en eitt hundrað ár verið öflugur þátttakandi í verslun, atvinnu og mannlífi á Ströndum, bæði til sjós og lands. Undanfarin ár hefur reksturinn verið erfiður og flestar deildir reknar með tapi. Stjórnendur félagsins fengu því Sævar Kristinsson hjá Netspor ehf, til að greina rekstur þess og koma með ábendingar hvað megi betur fara, svo KSH nái betri árangri í að efla atvinnu- og búsetuskilyrði á félagssvæðinu, laga reksturinn og nýta þau tækifæri sem felast í bættum samgöngum og meiri ferðalögum fólks milli landshluta."
"Félagið hefur sterkan efnahag og hefur í sinni þjónustu traust starfsfólk. Það nýtur álits sem áreiðanlegt fyrirtæki hjá sínum viðskiptaaðilum, stórum og smáum. Félagið nýtur velvildar margra íbúa svæðisins og skilnings á mikilvægi þess í atvinnu- og samfélagslegu tilliti, því eru góðar líkur á að þessi markmið náist.
Á næstu vikum mun stjórn KSH kynna umbætur á rekstri félagsins, þar sem meðal annars er stefnt að því að sameina allan verslunarrekstur félagsins á Hólmavík í einu húsnæði.
Núverandi rekstur og væntanlegar breytingar eru að sjálfsögðu ekki hafnar yfir gagnrýni hafnar og öllum ábendingum verður vel tekið, enda tilgangur þeirra sá sami og hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar: Hagur heimabyggðar.”
Stjórn KSH ásamt Sævari Kristinssyni þegar áfangaskýrsla hans var afhent Kaupfélaginu í sumar
– Ljósm. Ásdís Jónsdóttir