22/12/2024

Hafnarframkvæmdir á Kolbeinsá

Það er ekkert verið að leggja árar í bát á Kolbeinsá í Hrútafirði, nei öðru nær. Um síðastliðna helgi hófust þar á bæ hafnarframkvæmdir í Naustavíkinni, sem er vík rétt fyrir norðan íbúðarhúsið þeirra Hilmars og Rósu. Þar ætlar Hannes Hilmarsson að koma sér upp góðri smábátahöfn. Sjósókn er ennþá stunduð frá Kolbeinsá, m.a. selveiðar og róið til fiskjar til að ná sér í soðið og einnig er bátur notaður við dúntekju, þannig að nauðsynlegt er að hafa gott bátalægi.

Framkvæmdirnar hófust með því að sprengt var úr klöppinni í botni víkurinnar. Trausti Bjarnason, sem á og rekur verktakafyrirtækið Afrek ehf, sá um að sprengja. Borað var fyrir sprengiefninu á háfjöru, um fjóra metra niður í klöppina og síðan sprengt þegar hæst stóð á sjó. Þannig myndaðist um það bil þriggja og hálfs metra djúp og tíu metra breið rauf, sem verður hin besta höfn. Hannes ætlar svo að að setja flotbryggju við höfnina sem gerir alla aðstöðu fyrir báta hina bestu. Þegar þetta verður allt orðið klárt verður ekki vandkvæðum bundið að kíkja í kaffi á Kolbeinsá, þótt farkosturinn sé bátur. 
   

Ljósm. frá Kolbeinsá