16/06/2024

Hafbjörgin komin á flot

Hafbjörg ST-77Hafbjörg ST-77 var sett á flot í gær eftir viðamiklar viðgerðir undanfarna mánuði en báturinn sökk þann 17. maí í fyrra út af Kaldrananesi. Í dag var Magnús Gústafsson skipstjóri Hafbjargar að gera ýmsar prófanir á bátnum í Reykjavíkurhöfn en hann er ánægður með breytingarnar og stefnir á siglingu til Hólmavíkur seinnipart vikunnar. 

„Veðurspáin er góð á miðvikudag og fimmtudag og ég stefni að því að sigla bátnum heim þá," sagði Magnús og lék við hvern sinn fingur. Haffærnispróf fara fram næstu daga svo ekkert ætti að vera því að vanbúnað að Hafbjörgin geti siglt í heimahöfn á Hólmavík fyrir næstu helgi.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í súldinni í Reykjavíkurhöfn í dag þar sem Magnús var að gera prófanir á bátnum. Hafbjörg St-77 er óneitanlega glæsilegt fley þar sem hún þýtur um sjávarflötinn.

.

.

.

Magnús svipast um í vélarrúmi Hafbjargar. Ljósmyndir: Stefán Þorsteinsson.

Tengdar fréttir:
Hafbjörg ST-77 á flot aftur