Um síðustu helgi fór Íslandsmeistaramótið í hrútadómum fram á Sauðfjársetri á Ströndum og var mikið um dýrðir. Fjöldi fólks kom þar saman að skoða hrútana, skrafa og skeggræða í dásemdar veðurblíðu. Alls tóku 75 keppendur þátt í mótinu að þessu sinni og áætlar starfsfólk Sauðfjársetursins að 400 manns hafi verið viðstaddir að þessu sinni og haft gaman af. Keppt er í tveimur flokkum, annars vegar vanir hrútadómarar sem kunna að stiga hrúta eftir öllum kúnstarinnar reglum og er keppt um Íslandsmeistaratitil í þeim flokki. Í hinum riðlinum keppa óvanir og hræddir hrútaþuklarar sem eiga að raða þessum sömu fjórum veturgömlum hrútum í gæðaröð og rökstyðja matið. Áður en keppnin hefst er dómnefnd jafnan búin að velja fjóra dálítið misjafna hrúta úr stærri hópi fyrir keppendur að leggja mat á, en í dómnefndinni að þessu sinni voru Jón Viðar Jónmundsson og Svanborg Einarsdóttir ráðunautur.
Það var Hadda Borg Björnsdóttir á Þorpum við Steingrímsfjörð, 23 ára Strandamær, sem stóð að þessu sinni uppi sem sigurvegari og Íslandsmeistari. Hún er fyrsta konan sem vinnur Íslandsmeistaratitilinn í þessari árlegu keppni frá því hún var fyrst haldin árið 2003 og jafnframt langyngsti sigurvegarinn. Í öðru sæti í flokki vanra varð Jón Jóhannsson bóndi á Þverfelli í Saurbæ í Dölum og jafnir í þriðja sæti urðu Haraldur V.A. Jónsson á Hólmavík, Elfar Stefánsson í Bolungarvík og Kristján Albertsson á Melum í Árneshreppi, en sá síðastnefndi hefur áður sigrað fjórum sinnum í þessari skemmtilegu og sérstæðu keppni. Elfar hefur einnig náð að landa Íslandsmeistaratitlinum einu sinni.
Í flokki óvanra hrútaþuklara sigruðu mæðgurnar Íris Ingvarsdóttir, Þórdís og Lóa, sem búsettar eru í Reykjavík, en í öðru sæti var drengur sem heitir Halldór Már. Í þriðja sæti voru svo þrír Strandamenn og náttúrubarnaskólateymi sem vann saman, Marinó Helgi Sigurðsson á Hólmavík, Ólöf Katrín Reynisdóttir í Miðdalsgröf og Þórey Dögg Ragnarsdóttir á Heydalsá.
Á hrútadómunum var einnig haldið líflambahappdrætti þar sem í vinninga voru frábær líflömb frá bændum á Ströndum, við Djúp og í Reykhólasveit. Góð þátttaka var í happdrættinu.
Fleiri myndir og upplýsingar má finna á Facebook síðu Sauðfjárseturs á Ströndum.
Frá hrútadómum 2016: Björn í Þorpum tekur á móti verðlaunum fyrir hönd Höddu dóttur sinnar á neðstu myndinni. Sigurvegarar í flokki óvanra, Íris, Lóa og Þórdís eru á efstu myndinni – ljósm. Dagrún Ósk Jónsdóttir