Magnús Steinþórsson gullsmiður og kaupmaður verður á ferðinni í gegnum Hólmavík í dag og vill gjarnan hitta fólk með gull og silfurgripi sem það vill koma í verð. Magnús hefur keypt mikið af gulli síðustu misseri, í samkeppni við erlenda gullkaupmenn sem hafa komið til landsins gagngert í þessum tilgangi. Magnús verður staddur í veitingaskála Kaupfélags Steingrímsfjarðar milli kl. 18-19 í dag, tekur á móti skartgripum og greiðir fyrir þá í reiðufé. Með honum í för er Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður en samstarf er milli Magnúsar og Þjóðminjasafnsins til að tryggja að gersemar eins og verðmætt þjóðbúningaskart lendi ekki í bræðslupottinum.