22/11/2024

Grunnmenntaskóli á Hólmavík í vetur

Fræðslumiðstöð Vestfjarða býður Strandamönnum upp á námsleið í vetur sem er kölluð Grunnmenntaskólinn og er skráningarfrestur í námið til 10. október. Ef næg þátttaka fæst verður kennt tvö kvöld í viku frá 18-22 frá 11. okt – 6. des og síðan aftur í janúar – apríl eftir áramót. Fyrir áramót eru kennslugreinarnar enska, tölvur, námstækni, sjálfsstyrking og samskipti. Eftir áramót verður kennsla í íslensku, framsögn, stærðfræði, tölvum, verkefnavinnu, færnimöppum, þjónustu, auk náms- og starfsráðgjöf. Námið er metið til styttingar náms í framhaldsskólum, allt að 24 einingum. Námsmenn geta hugsanlega fengið styrk úr stéttarfélögum sínum.

Kynningarfundur verður um námið í Grunnskólanum á Hólmavík mánudaginn 8. október kl. 20:00 og verður Smári Haraldsson forstöðumaður Fræðslumiðstöðvarinnar þar á staðnum.

Námið er einkum ætlað fólki á atvinnumarkaði, eldra en 20 ára og með stutta formlega skólagöngu. Skráning í námið er á www.frmst.is eða hjá Kristínu Einarsdóttir, kristin@frmst.is, s. 867-3164.