22/12/2024

Gráþrestir í heimsókn á Hólmavík

Í dag sást gráþröstur í görðum á Hólmavík, en slíkir fuglar eru fremur sjaldgæfir gestir á Vestfjörðum. Þeir eru hins vegar nokkuð algengir haust- og vetrargestir annars staðar á landinu og hafa orpið nokkrum sinnum hér á landi svo vitað sé. Þeir sækja sérstaklega í garða þar sem fuglum er gefið og sýna öðrum fuglum oft nokkurn yfirgang. Gráþröstur er nokkuð stærri en skógarþröstur og með lengra stél og þeim þykir epli hið mesta lostæti. Það var Pétur Matthíasson sem festi gráþröstinn á Hólmavík á mynd.