07/10/2024

Grænfáninn dreginn að húni 28. maí

Grunnskólinn á Hólmavík gaf nýverið út bækling sem var dreift um allt sveitarfélagið þar sem Grænfánaverkefnið er kynnt. Fram kemur að grænfáninn verður afhentur skólanum þann 28. maí n.k., en þá munu fulltrúar frá Landvernd koma og gera einskonar lokaúttekt áður en fáninn sjálfur verður afhentur. Byrjað var á verkefninu haustið 2008 og hafa allir nemendur og starfsfólk skólans lagst sameiginlega á árar til að ná þessum merka áfanga. Grænfáninn er veittur til tveggja ára í senn og til að halda honum áfram þarf skólinn að setja sér ný markmið og vinna áfram að bættu starfi innan skólans. Það verður verðugt verkefni, segir í bæklingnum.

Verkefni fyrir grænfánann eru bæði til kennslu og til að bæta daglegan rekstur skólans. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla.

Gænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.