04/10/2024

Gönguferð að Rostungskletti

Víða má finna skemmtilegar gönguleiðir á Ströndum, fyrir þá sem vilja viðra sig í góða veðrinu sem hefur verið viðloðandi. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is rölti í dag inn með sjónum frá Hólmavíkurþorpi í áttina að Ósi og smellti af nokkrum myndum. Örnefni og saga eru við hvert fótmál, hvert sem leiðin liggur og oft er gaman að rifja upp og reyna að muna nöfn á helstu kennileitum, rétt eins og það er gaman að njóta náttúrunnar. Ekki er víst að rétt sé farið með öll örnefnin sem fylgja myndunum hér að neðan, enda er textagerðarmaður ekki innfæddur Hólmvíkingur. Þeir sem vita betur eru því beðnir um að senda athugasemdir á strandir@strandir.saudfjarsetur.is.

            580-rostungsganga14

Hákarla- og fiskhjallur utan við Stóru-Grund.

580-rostungsganga2

Fjárhúsin á Stóru-Grund. Magnús Lýðsson byggði fjárhús þarna í kringum 1928 og um það leyti hefur nafnið Stóra-Grund fest í sessi, en áður var staðurinn kallaður Langa-Grund. Margir hafa stundað þarna búskap síðan, nú Gunnar Númason.

580-rostungsganga1

Góðleg kind gægist út um glugga.

580-rostungsganga13

Útsýnið frá Vallnesi, rétt innan við Stóru-Grund. Víkin heitir þá Vallnesvík, en Háaklifið er handan hennar. Ofan við Vallnes eru Hrafnaklettar og sjást á myndinni hér fyrir neðan.

580-rostungsganga12

Fréttaritari er nú ekki viss um að myndin sé af Sigguhelli, hálffullum af snjó, rétt innan við girðinguna við Stóru-Grund. Hitt er víst að þarna er einhvers staðar hellisskúti með því nafni og er sagt að bóndi nokkur í Kálfanesi á fyrri hluta 19. aldar, sem kallaður var Ólafur kollubor, hafi fengið hjákonu sína til að halda til í þessum helli um tíma og heimsótt hana af og til.

580-rostungsganga3

Gamalt siglingamerki – það er ekki alltaf það sem er nýjast og flottast sem kemur best út á mynd.

580-rostungsganga10

Göngumerkingar við Háaklif og Vallnesið í baksýn. Þarna kemur göngustígurinn um Kálfanesborgir niður innan við þorpið. Hann var lagður og afmarkaður á síðasta áratug 20. aldar af unglingavinnu Hólmavíkurhrepps undir verkstjórn Sigurðar Atlasonar. Síðastliðið sumar var hann lagfærður af sjálfboðaliðasamtökunum Seeds sem hér dvöldu í viku á vegum sveitarfélagsins.

580-rostungsganga11

Krummi og krakkarnir hafa ekki náð að klára berin í haust.

580-rostungsganga9

Vegurinn um Háaklifið. Þarna er brött brekka innan við klifið sem var hin versta torfæra fyrir bíla áður fyrr. Reyndar var vegurinn upphaflega bara gamall reiðvegur, en var gerður bílfær 1927-28.

580-rostungsganga8

Hálka í brekkunni og ekki í fyrsta eða síðasta sinn. Þarna sjást siglingamerki sem gefa til kynna hver stefnan á rafstreng sem liggur yfir fjörðinn að Sandnesi er, til leiðbeiningar fyrir sjómenn. Önnur slík merki eru í Vallnesvíkinni og sýna þau sæsímann.

580-rostungsganga7

Sandnes, handan Steingrímsfjarðar.

580-rostungsganga6

Rostungsklettur er nokkru innan við Háaklifið og sést þaðan. Ekki er vitað af hverju kletturinn ber þetta nafn, en einhvers staðar segir að hann sé líkur rostungi. Þrátt fyrir öflugt hugmyndaflug á köflum sér sá sem þetta ritar ekki þá líkingu. Eins gæti verið að kletturinn heiti eftir rostungum sem voru vissulega viðloðandi Ísland við landnám, þarna gæti einhver rostungurinn hafa skriðið á land eða þá að þarna hafi verið verslað eða siglt með rostungstennur, skinn og reipi. Rostungsörnefni eru býsna mörg hér við land. Rostungar voru áður kallaðir rosmhvalir og því eru staðir eins og Rosmhvalanes og Hvallátur líka kenndir við þá.

580-rostungsganga5

Bassastaðir, handan Steingrímsfjarðar.

580-rostungsganga4

Horft inn fjörðinn frá Rostungskletti, en inn með ströndinni er svokölluð Urð. Einhvers staðar heitir Arnarstapi í klettunum ofan við þessa leið, en hann gæti líka bæði verið utar og innar. Fjærst er Höfði og Höfðavíkin hérna megin við hann. Innan við hann er Ósárósinn.

Ljósm. Jón Jónsson