22/12/2024

Göngudagur fjölskyldunnar í Strandabyggð

 Fimmtudaginn 29. september verður Göngudagur fjölskyldunnar haldinn í Strandabyggð. Gangan hefst við Íþróttamiðstöðina á Hólmavík kl. 17:00. Allir eru boðnir velkomnir og alls ekki er skilyrði að menn gangi alla leið. Gengið verður upp göngustíginn um Kálfanesborgir, staldrað við hjá Skólavörðu og áð við Háborgarvörðu. Þar mun hópurinn skrá nöfn sín í gestabók, borða nesti og eiga notalega stund saman áður en gengið verður áfram niður að grunnskólanum og síðan þaðan að íþróttamiðstöðinni. Fólk er hvatt til að taka nesti með sér í gönguna, t.d. kakó, samlokur, kleinur eða annað góðgæti sem smakkast hvergi betur en undir berum himni.  

Markmið göngudagsins er að öll fjölskyldan eigi góða stund saman við holla hreyfingu í góðum félagsskap. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að ungmenni sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum og stunda íþróttir, útivist og annað skipulagt æskulýðsstarf eru síður líkleg en aðrir til að hefja neyslu fíkniefna á lífsleiðinni. Tíminn sem við verjum með börnum okkar við heilbrigðar og gefandi tómstundir er því ekki bara dýrmætur meðan á honum stendur; áhrifin af þessum stundum endast allt lífið.   

Það er tómstundafulltrúi Strandabyggðar, Arnar S. Jónsson, sem stendur fyrir göngudeginum.