22/12/2024

Góður sigur Vinstri-Grænna í Norðvesturkjördæmi

Aðsend grein: Jón Bjarnason.
Því verður vart á móti mælt að Vinstrihreyfingin grænt framboð vann stórsigur í nýafstöðnum alþingiskosningum um allt land. Þannig var það einnig í Norðvesturkjördæmi. Flokkurinn jók fylgi sitt í kjördæminu um nærri 60% frá síðustu alþingiskosningum, fór úr 10,7% í 16% og var hársbreidd frá því að fá tvo þingmenn. Þennan árangur má þakka því að Vinstri-græn hafa á skömmum tíma náð að byggja upp öflugt félagsstarf um allt kjördæmið. Við eigum nú á að skipa ferskri og baráttuglaðri liðsveit sem er reiðubúin til enn stærri átaka á næstu misserum. Kosningabarátta okkar var rekin á eigin málefnum og af heiðarleika. Á kosningaskrifstofum víðsvegar um kjördæmið var líf og fjör þar sem bæði bakkelsi og málefnalegar umræður voru á borðum. Það var mikill styrkur fyrir VG og kjördæmið að fá Ingibjörgu Ingu í baráttusætið en aðeins munaði hársbreidd að hún næði kjöri eins og að var stefnt.

Þingmönnum frá Norðvesturkjördæmi hefur því miður fækkað hratt á síðustu árum eða úr 15 í 10 með kjördæmabreytingunni og svo nú síðast úr 10 í 9 þannig að vægi kjördæmisins í landsstjórninni hefur hríðminnkað á skömmum tíma. Ég dreg í efa að sú breyting sé þjóðinni til góðs. Það er því mín von að við nýkjörnir þingmenn þessa stóra og víðfeðma svæðis náum að vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum Norðvesturkjördæmis hvar sem standa í stjórnmálum.

“Óveðursský á himni”

Allar líkur benda nú til að við taki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem formaður Framsóknarflokksins hefur nú þegar nefnt „Baugsstjórn“. Enn liggur stjórnarsáttmáli ekki fyrir en því miður finnst mér allt benda til þess að þessi samsteypa muni skara enn frekari eld að þeirri þenslu sem nú ríkir á höfuðborgarsvæðinu og áframhaldandi samþjöppun auðæva á fárra hendur. Þannig muni stjórnin bera nafn með rentu. Á hina höndina verður gengið enn nær landsbyggðinni með einkavæðingu almannaþjónustu, óheftum innflutningi á landbúnaðarvörum og óheftum kvótaviðskiptum sem hafa leikið mörg byggðalög grátt.  Það verður fróðlegt að fylgjast með Samfylkingunni í ríkstjórn þar sem sumir boðuðu stóriðju stopp og friðun jökulvatna í Fagra Ísland en aðrir áframhaldandi álvæðingu með tilheyrandi fórnum á náttúruverðmætum. Hvað verður um íslenskan landbúnað þegar frjálshyggjuöflin í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu ná saman? Fer nú aðild að ESB og framsal á sjálfstæði þjóðarinnar á fulla ferð?

Baráttan heldur áfram

Vinstrihreyfingin grænt framboð er ótvíræður sigurvegur kosninganna og staða okkar í kjördæminu er sterk. Mikil fylgisaukning okkar sýnir að kjósendur vilja breytta stefnu. Við viljum efla félagsleg gildi, samábyrgð, náttúruvernd og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlindanna.

Við viljum að hluti fiskveiðiheimildanna verði bundinn sjávarbyggðunum og íbúunum verði þannig tryggður eðlilegur forgangsréttur að auðlindum sínum til lands og sjávar. Það sem nú er að gerast á Vestfjörðum er enn ein rækileg áminningin til stjórnvalda og  krafa um algjöra hugarfarsbreytingu í málefnum sjávarbyggðanna og landsbyggðarinnar allar.

Ég vil þakka meðframbjóðendum mínum á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, svo og þeim sem stýrðu kosningabaráttunni af miklu hugviti og krafti og þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg í þessum kosningum. Kjósendum flokksins þakka ég innilega fyrir öflugan og góðan stuðning.

Jón Bjarnason alþingismaður Vinstri Grænna í Norðvesturkjördæmi