22/12/2024

Góður gangur hjá Hólmadrangi

Hólmadrangur og húsin í kringÞann 1. apríl á þessu ári komu heimamenn aftur að rekstri Hólmadrangs er Kaupfélag Steingrímsfjarðar eignaðist helmingshlut í félaginu og tók þá nýtt félag með sama nafni við rekstri fyrirtækisins. Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra Hólmadrangs hefur rekstur félagsins gengið nokkuð vel frá apríl til og með nóvember. Framleiðsluverðmæti hjá Hólmadrangi þessa fyrstu 8 mánuði voru rúmar 610 milljónir.

Góðan árangur sagði Gunnlaugur Sighvatsson framkvæmdastjóri að mætti m.a. þakka vel tæknivæddri verksmiðju, að í heildina hafi ágætlega tekist til með innkaup á hráefni og sölu afurða og ekki síst jákvæðu og metnaðarfullu starfsfólki. Þá hafi við eignabreytinguna náðst góð samstaða og samvinna milli eigenda og heimamanna um að byggja reksturinn á grunni sem vænlegur væri til árangurs til lengri tíma litið. Sem lið í því var ráðist í nokkrar framkvæmdir á árinu, sem voru þær helstar að tekin var í notkun ný hreinsivél, skipt um sjóðara og nú fyrir skömmu voru settir upp svokallaðir rækjukælar framleiddir hjá 3X-stál á Ísafirði, en þeim er ætlað að bæta enn nýtingu rækjunnar. Þá var lagt bundið slitlag á athafnasvæði félagsins, norðan og austan við verksmiðjuna.

Á stjórnarfundi Hólmadrangs 13. desember var farið yfir niðurstöðu rekstrar það sem af er og rekstrar- og framkvæmdaáætlanir fyrir næsta ár.  Afkoman var nokkuð umfram væntingar og verður áfram ráðist í nauðsynlegar aðgerðir til að bæta enn frekar rekstrarafkomu og tryggja hráefnisöflun. Gunnlaugur kvað reksturinn hafa verið nokkuð kaflaskiptan á tímabilinu, gengið hafi vel frá apríl og fram í september, en í okt. og nóv. hafi menn upplifað töluvert tap, í kjölfar hækkandi hráefnisverðs og slakari hráefnisgæða. Vel hefur gengið að selja afurðir, en allra síðustu vikur hefur heldur hægt á sölu og birgðir safnast upp. Vonir standa til að úr rætist fljótlega eftir áramót.