22/12/2024

Gleðitíðindi frá Vegagerðinni

Þau gleðitíðindi hafa borist frá Vegagerð ríkisins að Vegagerðin eykur til muna vetrarþjónustu á þjóðvegum landsins næsta vetur. Sú ánægjulega breyting verður að Djúpvegur frá Brú til Hólmavíkur og áfram á Ísafjörð verður nú mokaður alla sjö daga vikunnar en var þjónustaður sex daga áður. Sama á við um Vestfjarðaveg frá Búðardal um Barðastrandasýslur og í Vesturbyggð, en þar var áður veitt þjónusta fimm daga í viku.  

Þá hefur Sturla Böðvarsson samgönguráðherra líst því yfir að engum framkvæmdum verði frestað nema í samráði við sveitarstjórnir, þannig að menn eru nú mjög tvístígandi um hver staða mála raunverulega er eftir fréttaflutning síðustu daga. Upplýsingar frá samgönguráðherra, öðrum ráðherrum og vegamálastjóra virðast ekki í takt. Engar líkur eru á að sveitarstjórnir á Vestfjörðum sætti sig við frestanir á þeim verkefnum sem fyrirhuguð voru og komin eru á dagskrá.

Á Ströndum eru vegabætur vestur og suður í hættu vegna hugmynda um frestun framkvæmda, bæði vegagerð um Arnkötludal, breytingar á veginum um Hrútafjarðarbotn og vegabætur í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Þá gæti malbikun á hluta vegarins á milli Hólmavíkur og Drangsness verið frestað, ef ríkisstjórnin ákveður að halda sig við þau áform. Fjórðungssamband Vestfjarða hefur mjög lengi haft á stefnuskrá sinni að berjast fyrir malbiki á milli nálægra þéttbýlisstaða og hefur það markmið náðst fyrir löngu alls staðar á Vestfjörðum nema á milli Hólmavíkur og Drangsness.