21/11/2024

Geirmundarstaðahrútar úr helju heimtir

“Þó stundum tækist að koma þeim hálfa leið upp snarbratta hlíðina, þá var árangurinn ávallt minni en enginn í lokin,” sagði Hjörtur bóndi er hann kom úr enn einni ferðinni sem hann fór við fjórða mann til að reyna að ná tveimur hrútum úr Þjóðbrókargili. Að sögn Hjartar var sauðþráinn svo mikill í hrútunum að þegar þeir lentu í vatni þá reyndu þeir ávallt að halda hausnum niðri í vatninu er smalarnir reyndu að lyfta. Þegar þeir skyldu reknir til vinstri fóru þeir til hægri og ef átti að reka áfram fóru þeir aftur á bak. Enduðu hrútarnir á að fara yfir gilið og voru að lokum nokkru fjær ákvörðunarstað, en þegar rekstur hófst að morgni.

En nú eru bekrarnir komnir í hús og tilbúnir að sinna skyldum sínum. Svo fór að lokum að hjálp barst úr óvæntri átt, þegar Jóhann Rósmundsson frá Gilstöðum (sem er dáinn fyrir nokkrum árum) gekk í lið með smölunum. Klukkan sex að morgni knúði hann dyra á sinn auðþekkjanlega hátt hjá Gunnari Númasyni bróðursyni sínum, og gerði honum skiljanlegt þar með, að nú væri rétti tíminn að sækja hrútana í gilið og Gunnsi hlýddi umyrðalaust. Það var sem við manninn mælt, þarna biðu dorrarnir eftir Gunnari smala með ásakandi augnaráð, rétt eins það væri hans sök að þeir væru ekki komnir heim fyrir löngu.

Þessir tveir voru ekki einu hrútarnir sem saknað var á Geirmundarstöðum, því um mánaðarmótin október og nóvember voru óheimtir fimm af tíu hrútum. Einn kom af Hvannadal um mánaðarmótin ásamt 42 öðrum kindum úr Árnes-, Kaldrananes- og Hólmavíkurhreppum sem ekki hafði tekist að ná fyrr.

Um síðustu helgi komu svo tveir veturgamlir hrútar að Hafnardal í Ísafjarðardjúpi, en að líkindum hafa þeir fregnað af einstaklega kynþokkafullum gimbrum bændanna þar, þeirra Reynis og Lóu. Hafa þeir sjálfsagt ætlað að kanna hvort feikna góðir dómar ráðunautsins, væru líkir þeirra væntingum og þrám. En margt fer öðruvísi en ætlað er og voru piltar þessir umsvifalaust teknir höndum og vísað úr landi eða landareign, án þess að þeir fengju að líta, hvað þá heldur að njóta þeirra unaðsemda sem hugur þeirra stóð til. Nú eru þeir komnir til síns heima og verða eins og margir aðrir að láta sér lynda það gamal kveðna að hafa skal það sem hendi er næst og hugsa ei um það sem ekki fæst. Alltaf má þó láta sig dreyma.

Hrússarnir komnir í hús

Sandhryggur lokar gilinu að nokkru, þar fyrir framan voru hrútarnir, en á móti Sandhrygg eru Kerlingarklettar (sjást ekki) og þar mun Þjóðbrók gamla standa steinrunnin.

Til vinstri, klettadrangar við Fálkastapa 50 til 60 metra háir.

Klettadrangur við Fálkastapa

Fálkastapi. Á litlu strýtunni hægra megin sat fálki rétt áður en myndin var tekin. – Ljósm. Guðbrandur Sverrisson