30/10/2024

Galdur og gaman hjá börnunum frá Borðeyri

Nemendur og starfsfólk Borðeyrarskóla komu í heimsókn til Hólmavíkur í gær og nýttu tímann til að fræðast meira um galdra. Börnin hafa undanfarið verið að lesa Strandanornir eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttir, en sú bók gerist á galdraslóðum á Ströndum. Þau kunnu því eitt og annað fyrir sér þegar þau komu á Galdrasýningu á Ströndum til að fræðast meira. Að sögn starfsfólks sýningarinnar eru börnin frá Borðeyri einstaklega góðir hlustendur og greinilega mjög áhugasöm um galdra og þjóðtrú. Að venju tóku þau þátt í tilberaleik í galdragarðinum að lokinni uppvakninganiðurkvaðningu, áður en þau stigu upp í rútuna heim á leið suður Strandir á ný, vel brynjuð gegn öllu illu sem kynni að verða á vegi þeirra.

.
Hópurinn hrópaði galdraþulu fyrir ljósmyndarann