21/11/2024

Fyrstu gestir á tjaldsvæðinu

Ýmis merki þess að ferðamannatíminn sé að hefjast má nú sjá á Ströndum. Þannig hefur verið nokkuð um erlenda gesti á ferli á Ströndum síðustu daga af ýmsum þjóðernum. Fréttaritari rakst síðan í kvöld á fyrstu gestina sem vitað er til að hafi tjaldað á tjaldsvæðinu á Hólmavík þetta vorið, þar sem þau voru á röltinu um þorpið. Þarna var á ferðinni par frá Póllandi sem sagðist ferðast á puttanum og næst lægi leiðin vestur á Ísafjörð. Ef of kalt yrði sögðust þau ætla að kaupa svefnpokagistingu. Í gær voru hins vegar bátar á ferð um þjóðveginn á Ströndum og vöktu mikla athygli.

Pólverjarnir sögðust hálfpartinn eiga erindi vestur, þær ætluðu sér að kortleggja geðheilsu Ísfirðinga.

Tjaldsvæðið á Hólmavík er skjólgott og hefur dálítið byrjað að grænka í blíðunni síðustu daga.

Bobby-bátar á ferð í Hrútafirðinum í gær, á leiðinni frá Akureyri vestur á Súganda. Fyrirtækið Hvíldarklettur á Suðureyri ætlar að leigja þá þýskum sjóstangveiðimönnum. Bátunum var svo siglt frá Arngerðareyri og áfram vestur.

Ljósm. Jón Jónsson