21/11/2024

Fyrirlestur um atferli sauðfjár á Ströndum

Fjarfundafyrirlestur Samtaka Náttúrustofa (SNS) þann 27. mars mun fjalla um atferlisrannsóknir á kindum. Hafdís Sturlaugsdóttir landnýtingarfræðingur í Húsavík við Steingrímsfjörð og starfsmaður Náttúrustofu Vestfjarða mun þá flytja fyrirlesturinn „Man sauður hvar gekk lamb“ og með hverjum? Atferlisrannsókn á sauðfé á Ströndum. Hægt verður að fylgjast með fyrirlestrinum í fjarfundarbúnaði í Grunnskólanum á Hólmavík og stendur hann frá 12:15-12:45.

Fyrirlesturinn fjallar um hluta af meistarprófsverkefni Hafdísar við Landbúnaðarháskóla Íslands. Fjallað verður um tengslamyndun lamba og móður og hvernig þau tengsl þróast. Rannsóknin var gerð á árunum 2005-2007. Rannsóknarhópurinn voru venjulegar ær og forystuær á bæjunum Húsavík og Innra Ósi á Ströndum. Rannsóknin var bæði gerð í heimahögum og eins var skoðað hvar ærnar héldu sig á frjálsri beit.

Á Vestfjörðum verður hægt að fylgjast með fyrirlestrinum á Hólmavík, Patreksfirði, Ísafirði og í Bolungarvík, en fjarfundir verða í tengslum við starfsemi Náttúrustofa um land allt.