22/12/2024

Fyrirheit – útgáfutónleikar og ball á laugardag

Bjarni ÓmarLaugardaginn 18. október er fyrirhugaður útgáfudagur hljómplötunnar Fyrirheit. Aðalflytjandi og lagahöfundur er Bjarni Ómar Haraldsson tónlistarmaður og deildarstjóri Tónskólans á Hólmavík, en hann er einnig útgefandi. Þetta er önnur sólóplata Bjarna en árið 1998 sendi hann frá sér plötuna Annað líf. Í tilefni af útkomu plötunnar fara fram útgáfutónleikar á Hólmavík þar sem ekkert verður til sparað til að gera umgjörð tónleikana sem glæsilegasta. Á tónleikunum koma fram allir þeir sem tóku þátt í gerð disksins auk þess sem valin hljóðfæraleikari er í hverju rúmi.

Tónleikarnir fara fram í Félagsheimilinu á Hólmavík laugardaginn 18. október og hefjast þeir klukkan 21:00. Eftir tónleikana eða frá klukkan 24:00 leikur svo hljómsveitin á dansleik þar sem gestum gefst kostur á að skemmta sér fram eftir kvöldi.

Diskurinn inniheldur 12 lög og eru flestar lagasmíðarnar melódískt popp í rólegri kantinum. Ástin og samkipti kynjanna skipa stórt hlutverk í textagerð.  Bjarni Ómar á sex texta á disknum en auk hans eru tveir aðrir textahöfundar frá Hólmavík, þau Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir kennari og Arnar S. Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársseturs á Ströndum. Í textagerðinni koma einnig við sögu Jónas Friðrik Guðnason frá Raufarhöfn, Oddur Bjarni Þorkelsson úr Ljótu hálfvitunum, Þorgerður Þóra Hlynsdóttir á Skagaströnd og Helgi Jónsson sem meðal annars var hljómborðsleikari í hljómsveitinni Írafár.

Hitann og  þungan af öllum hljóðfæraleik ber Borgar Þórainsson, en aðrir sem koma við sögu auk Borgars og Bjarna eru trommuleikarinn Haukur Pálmason og Svavar Viðar Hafþórsson. Um bakraddir og dúetta sjá Strandamennirnir Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir, Arnar S. Jónsson, María Mjöll Guðmundsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir, Sigurrós G. Þórðardóttir og Stefán S. Jónsson.

Upptökur fóru fram í júní – september 2008. Tekið var upp í stúdió Hljóðhimnum sem staðsett er í Hornslet í Danmörku og Hljóðlist á Akureyri. Þá var sumarbústaðnum Brekkuseli á Ströndum breytt í stúdíó í eina viku  í júlí þar sem allar bakraddir voru teknar upp. Eftirvinnsla og mastering fór fram stúdíó Hljóðhimnum.

Upptökustjórn var í höndum Borgars Þórarinssonar en hann var einnig upptökumaður og sá um masteringu.