24/07/2024

Fylling með lægsta boð

Þann 14. desember voru opnuð tilboð í verkefnið Öryggissvæði fyrir Ísafjarðarflugvöll hjá Ríkiskaupum. Fjórir buðu í verkefnið, þar á meðal Fylling ehf. á Hólmavík sem átti lægsta boð. Á fundi hjá Ríkiskaupum komu fram nöfn bjóðenda ásamt heildarupphæð á tilboðum og kostnaðaráætlun sem var 121.128.000.-

Eftirfarandi tilboð bárust í verkefnið:

  • 1. Fylling ehf. á Hólmavík 53.837.000.-
  • 2. Borgarverk ehf. í Borgarnesi 134.897.500.-
  • 3. Úlfar ehf. á Ísafirði 86.735.378.-
  • 4. KNH ehf. á Ísafirði 56.566.000.-

Ekki eru þó öll kurl komin til grafar með þetta útboð, því í því er gert ráð fyrir efnistöku í tveimur gryfjum á Kirkjubólshlíð og í námu á Dagverðardal við Ísafjörð. Samkvæmt fréttum Svæðisútvarpsins á Ísafirði mun Flugmálastjórn hafa sett efnistökuna inn í útboðið án þess að ráðfæra sig við bæjaryfirvöld á Ísafirði.

Síðan hefur komið á daginn að bæjaryfirvöld eru ósátt við efnistökuna í Kirkjubólshlíðinni þó umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar hafi lagt til að Flugmálastjórn fái starfsleyfi til að hefja framkvæmdir við öryggissvæði Ísafjarðarflugvallar. Hún féllst hins vegar ekki á að efnið yrði tekið úr Kirkjubólshlíð, en þar hugðist Vegagerðin grafa inn snjóflóðaskápa.