22/12/2024

Fylgi Samfylkingar minnkar verulega

Samkvæmt Þjóðarpúlsi Capacent frá 1. desember síðastliðnum hefur fylgi stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi breyst verulega frá mánuðinum á undan. Sjálfstæðisflokkur heldur þó sínu 35% fylgi og Vinstri grænir bæta lítið eitt við sig, eru með 20% og næst stærsti flokkurinn í kjördæminu. Framsókn er með 16% fylgi eins og síðast. Fylgi Samfylkingarinnar hrapar frá síðasta mánuði og er nú 15% á meðan Frjálslyndir taka stökk upp á við og eru með 14%. Niðurstöðurnar byggjast á símakönnun sem gerð var á tímabilinu 25. október til 27. nóvember.

Samkvæmt útreikningum fjölmiðla út frá niðurstöðum könnunarinnar verður skiptingin á þingmönnum þannig í Norðvesturkjördæmi að Sjálfstæðismenn fá 3, Vinstri grænir 2, Framsókn 2 og Samfylking og Frjálslyndir 1 mann hvor flokkur. Níu þingmenn verða í kjördæminu eftir kosningar í vor og þar af er einn uppbótarmaður sem ræðst m.a. af fylgi listanna í öðrum kjördæmum. Annar maður Framsóknarflokksins er uppbótarmaðurinn, samkvæmt útreikningunum.

Þeir þingmenn sem eru í þessum sætum á listum sem þegar hafa verið birtir eru Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson frá Sjálfstæðisflokki, Magnús Stefánsson og Herdís Sæmundardóttir frá Framsókn og Guðbjartur Hannesson frá Samfylkingu. Vinstri grænir og Frjálslyndi flokkurinn hafa hins vegar ekki birt sína lista, þó reikna megi með að Jón Bjarnason og Guðjón Arnar Kristjánsson skipi þar efstu sætin.

Á landsvísu eru tölurnar þær í þessari könnun að Sjálfstæðisflokkur er með 37%, Frjálslyndir 11%, Framsókn 8%, Vinstri grænir 19% og Samfylking 25%.

 

Kosningar 2003

1.nóv.06

1.des.06

Sjálfstæðisfl.

29,6%

35%

35%

Samfylkingin

23,2%

25%

15%

Framsókn

21,7%

16%

16%

Frjálslyndir

14,2%

6%

14%

Vinstri grænir

10,6%

18%

20%