22/12/2024

Furðuleikar á sunnudaginn

 Furðuleikar Sauðfjárseturs á Ströndum eru ómissandi hluti af Hamingjudögum, en þeir hefjast við Sævang kl. 13:00 sunnudaginn 4. júlí nk. Sú nýbreytni verður tekin upp að veita verðlaun í nokkrum greinum, t.d. getur fólk unnið splunkunýjan farsíma fyrir sigur í farsímahittni og önnur verðlaun fyrir öskur og durgakast. Í Kvennahlaupi verður afhentur til varðveislu nýr farandbikar og sýningargreinin Trjónufótbolti tekur á sig nýja mynd með fyrsta opinbera landsleiknum milli Íslands og heimsúrvals frá Bandaríkjunum, Suður-Kóreu, Ítalíu, Rússlandi og Englandi. Skítkastið verður á sínum stað og auk þess fer fram Hamingjuhappdrætti með veglegum vinningum, en allir gestir á kaffihlaðborði setursins fá miða í happdrættinu. 

Aðgangur á Furðuleikana er ókeypis fyrir alla og alls engar kröfur eru gerðar til keppenda um færni, þol eða fyrri reynslu í íþróttum. Skráning í greinar fer fram á staðnum.