Fimmtudaginn 8. október kl. 20:00 fer fram samræðu- og kynningarfundur um óáþreifanlegan menningararf á Restaurant Galdri á Hólmavík. Fundurinn er liður í verkefni sem Þjóðlist og dr. Guðrún Ingimundardóttir vinna fyrir menningarmálaráðuneytið og felst í því að kynna sáttmála UNESCO um verndun óáþreifanlegrar menningararfleifðar og afla nauðsynlegra upplýsinga til að undirbúa innleiðingu sáttmálans og að uppfylla ákvæði hans. Þarna er til dæmis um að ræða þekkingu og kunnátta sem tengist matargerð, sauðfjárbúskap, vefnaði, kveðskap, þjóðdansi, þjóðbúningum, útskurði, hákarlverkun, bátasmíði, vinnslu rekaviðar og vinnu með ull.