22/11/2024

Frumrannsókn á veru Baska lokið

Frumrannsókn á basknesku hvalveiðistöðinni í Hveravík við Steingrímsfjörð er lokið og fyrir liggur skýrsla þeirra félaga, Ragnars Edvardssonar fornleifafræðings og Magnúsar Rafnssonar sagnfræðings. Í skýrslunni er rannsóknin útskýrð bæði út frá sagnfræðilegum og fornfræðilegum aðferðum og niðurstöður í þessari frumrannsókn birtar. Í skýrslunni er fjöldi uppdrátta og ljósmynda, en hana er hægt að lesa í heild sinni á vef Galdrasýningar á Ströndum. Einnig er hægt að kaupa hana í pappírsformi á kr. 1.500 hjá Galdrasýningunni. Kaldrananeshreppur styrkti rannsóknina nýlega rausnarlega með 100.000 kr framlagi, en vonast er til að áframhaldandi rannsóknir og enn frekari uppgröftur hefjist aftur strax næsta sumar.

Rannsóknin á hvalveiðum Baska við Ísland hefur vakið mikla eftirtekt bæði hér á landi og erlendis og margar fyrirspurnir borist vegna þeirra, en minjarnar á Strákatanga hafa alþjóðlegt gildi þar sem mannvirkin voru reist af erlendum mönnum og eru af sömu gerð og hvalveiðistöðvarnar í Red Bay við Nýfundnaland og annars staðar á Norður-Atlantshafssvæðinu. Rannsóknir á minjum eftir erlenda hvalveiðimenn eru taldar auka skilning á upphafi hvalveiða á N-Atlantshafi og útskýra hvaða áhrif vera þessara erlendu manna hafði á íslenskt samfélag.

Hægt er að lesa skýrsluna með því að smella hér eða panta hana í innbundnu pappírsformi á netfanginu galdrasyning@holmavik.is eða í síma 451 3525.

Rústirnar á Strákatanga og staðsetning könnunarskurða.
Þetta er ein nokkurra útskýringateikninga í skýrslunni.