23/12/2024

Friðarloginn á Hólmavík

Það er ekki á hverjum degi sem skátar gera sér ferð á Strandir, en það gerðist einmitt fimmtudaginn 14. desember sl. Þá varð Hólmavík í fyrsta skipti hluti af ferð umhverfis landið með Friðarlogann svokallaða, en slíkar ferðir hafa verið farnar frá því loginn kom til Íslands í fyrsta skipti árið 2001. Friðarloginn var afhentur á jólatónleikum Tónskólans á Hólmavík, en þar tóku þrjú ungmenni formlega við honum fyrir hönd Strandamanna. Hann verður látinn loga sleitulaust fram til jóla og allir sem vilja er velkomið að fá sér "afleggjara" af eldinum á þeim stöðum sem hann verður á hverju sinni.

Nánar verður sagt frá ferðalagi logans um Hólmavík á næstu dögum, en hann verður á handverksmarkaðnum í félagsheimilinu um helgina og börn í Grunnskólanum fá hann svo í sína vörslu á mánudaginn. Það er ljóst að þetta er skemmtilegt innlegg í jólaundirbúning Hólmvíkinga og Strandamanna og fengur að því að fá að taka þátt í friðarboðskap með þessum hætti.

Friðarloginn var tendraður í fæðingarhellinum í Betlehem um 30 eftir Krist, en skátar frá Austurríki sóttu hann árið 1986 og síðan hefur hann breiðst út til annarra Evrópulanda. Loginn lifir allt árið um kring í St. Jósefskirkju í Hafnarfirði. Sérhvert nýtt ljós sem tendrað er með Friðarljósinu er kveikt með ósk um frið á jörðu.

Friðarljósið er:
– gjöf
– ljós samkenndar og samábyrgðar
– ljós friðar og vináttu
– ljós frelsis og sjálfstæðis
– ljós fyrir þá sem þjást eða eru einmanna
– ljós fyrir hjálpsemi í verki

Friðarljósið er tendrað af ljósi sem ætíð logar í Fæðingarhellinum í Betlehem. Boðskapur ljóssins er: FRIÐUR Á JÖRÐU. Frekari upplýsingar um logann og ferðir hans á Hólmavík má nálgast með því að hafa samband við Arnar í s. 661-2009.