Hamrarnir eru víða á lofti á Hólmavík þessa dagana og framkvæmdahugur í mannskapnum. Margvíslegar framkvæmdir eru í gangi í þorpinu og nágrenni þess, bygging nýrra húsa til ýmissa nota og margvíslegar lagfæringar á eldri húsum, umbætur á umhverfinu og uppbygging ferðaþjónustu og afþreyingar fyrir íbúana. Sérstaklega er skemmtilegt að fylgjast með umbótum tengdum afþreyingu þessa dagana, smíði náttúruskoðunarhúss, golfskála og lagningu krossbrautar. Einnig vekja lagfæringar eigenda á gömlum húsum neðan við Klifið alltaf mikla athygli, enda verða gömlu húsin oftast hin glæsilegustu eftir umbæturnar og til mikils sóma fyrir samfélagið.
Náttúru- og fuglaskoðunarhús er í smíðum í Skipatanga á Tungugrafarvogum
Nýtt íbúðarhús í smíðum á Hrófá
Golfskáli lítur dagsins ljós í Skeljavík
Torfærubraut er að verða tilbúinn á Hvítarbökkum í landi Kálfaness og verður vígð um Hamingjudagana
Miklar framkvæmdir standa yfir í kirkjugarðinum á Kálfanesskeiði
Byggingu nýs parhúss er lokið í Miðtúninu. Hornsteinar standa fyrir verkefninu og hafa selt aðra íbúðina og hin er til sölu þessa dagana
Listaskáli er í smíðum efst í Lækjartúninu
Bílskúr er í byggingu nokkru neðar í Lækjartúni
Milli Víkurtúns og Austurtúns hefur leikvöllurinn fengið andlitslyftingu og kofi hefur bæst við byggingar
Hinu megin við götuna, milli Höfðatúns og Miðtúns, hefur vegleg girðing risið utan um athafnasvæði KSH. Gárungarnir segja að grenndarkynningin hafi tekið töluverðan tíma og tafið verkið
Í Austurtúninu hefur bílskúrum fjölgað um einn á síðustu mánuðum
Von er á nýju aðstöðuhúsi við tjaldsvæðið á Hólmavík, en það hefur verið í smíðum hjá starfsmönnum hreppsins
Við Hafnarbrautina standa yfir miklar endurbætur á einu af gömlu húsunum
Steinhúsið á Hólmavík hefur breytt um svip og er nú komið með tvær útihurðir eins og í gamla daga
Ráðaleysið hefur breytt um svip eftir að gluggar eru orðnir samræmdir á framhliðinni. Þar er Handverkshús Hafþórs til húsa
Á Plássinu er hús Gunnars Þórðarsonar orðið sérlega glæsilegt eftir málningarvinnu
– Ljósm. Jón Jónsson