26/12/2024

Framhaldsskóladeild á Hólmavík


Góðar líkur eru á að framhaldsskóladeild verði að veruleika á Hólmavík  og að starfsemi hennar geti hafist strax haustið 2013. Í breytingatillögum meirihluta fjárlaganefndar vegna fjárlaga 2013, sem nú eru til umræðu á Alþingi, er gerð tillaga um framlag til deildarinnar. Reiknað er með framlagi ríkisins í fjögurra ára tilraunaverkefni sem stefnt er að því að framkvæmt verði á árunum 2013-2017. Námið sem yrði í boði yrði sniðið fyrir fyrstu tvö árin í framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að deildin yrði rekin í nánu samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, en sá skóli fór af stað með sambærilegt nám á Hvammstanga nú í haust. 

Þessar fréttir eru mikið gleðiefni og hreint út sagt frábær tíðindi fyrir byggð og mannlíf á Ströndum að íbúar og unglingar á svæðinu hafi í framtíðinni þann valkost að stunda nám í heimabyggð.

Framhaldsskóladeild á Hólmavík hefur verið sérstakt baráttumál sveitarstjórnar Strandabyggðar. Hugmyndin hefur einnig fengið góðan stuðning annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum, m.a. var stofnun slíkrar deildar ein af sjö tillögum Fjórðungssambands Vestfirðinga sem gerðar voru til ríkisvaldsins um verkefni í sóknaráætlun fyrir Vestfirði árið 2012.

Góð reynsla hefur verið af sambærilegri framhaldsdeild á Patreksfirði og nú í haust á Hvammstanga.