22/12/2024

Frækileg framganga kvennakórsins

Kvennakórinn Norðurljós á Hólmavík tók þátt í 6. landsmóti íslenskra kvennakóra sem haldið var í Hafnarfirði dagana 29. apríl til 1. maí. Alls tóku 15 kórar, víðsvegar að af landinu (auk íslenska kvennakórsins í Kaupmannahöfn) þátt í mótinu. Þátttakendur á mótinu voru í heildina ríflega 400. Mótið var sérstaklega vel skipulagt og skemmtilegt og móttökur Kvennakórs Hafnarfjarðar höfðinglegar.

Tvennir tónleikar voru haldnir, á hinum fyrri söng hver kór fyrir sig. Þar sungu okkar konur tvö lög, fyrra lagið var “Ég heillaðist” við texta Guðrúnar Sighvatsdóttur (systur Gunnlaugs Sighvatssonar) sem ortur var sérstaklega fyrir kórinn. Seinna lagið var “Leiðarljós” eftir Gunnar Þórðarson. Hann annaðist sjálfur undirleik í báðum lögum ásamt Gunnlaugi Bjarnasyni og Úlrik Ólasyni.

Þær María Mjöll Guðmundsdóttir og Sigurrós Guðbjörg Þórðardóttir sungu tvísöng í lagi Gunnars (með miklum bravúr!) og var það í fyrsta skipti sem þær syngja opinberlega tvísöng með kórnum. Mjög góður rómur var gerður að söng kórsins og líflegri framkomu.
Á síðari tónleikunum sungu stærri hópar saman verk sem æfð voru um helgina og svo mynduðu allir þátttakendur stóran kór í lokin.

Kvennakórinn Norðurljós syngur – ljósm. Margrét Á. Halldórsdóttir.