11/10/2024

Fræðslufundur um nytjar á sel til matar

Selir - ljósm. Sigurður AtlasonFimmtudaginn 27. janúar n.k. verður haldinn opinn fræðslufundur syðra á vegum félagsins Matur – saga – menning. Fundurinn er sá þriðji í röð fræðslufunda á vegum félagsins þennan vetur og fjalla þeir allir um nytjar á villtum dýrum úr íslenskri náttúru, fyrr og nú. Pétur Guðmundsson frá Ófeigsfirði, formaður samtaka selabænda, og Guðmundur Ragnarsson munu flytja erindi um á hvern hátt Íslendingar nýttu seli til matar og hvernig hægt er að nýta selaafurðir á nýstárlegan hátt. Pétur er þekktur fyrir kunnáttu sína á hlunnindabúskap. Guðmundur Ragnarsson er matreiðslumeistari og fyrrverandi landsliðskokkur og býr yfir sérfræðiþekkingu á nýtingu íslenskra villtra dýra úr náttúru Íslands.

Við Ísland kæpa tvær tegundir sela, landselur og útselur, auk þess sem hánorrænu tegundirnar vöðuselur, kampselur, blöðruselur og hringanóri hafa hér viðkomu í mismiklum mæli. Fundurinn verður haldinn í sal Reykjavíkurakademíunnar, Hringbraut 121, 4. hæð, kl. 20.00 til 22.00. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.