23/12/2024

Foreldrafélagið gefur skólanum tölvu

Stjórn Foreldrafélags Grunnskólans á Hólmavík sem samanstendur af Ingimundi Pálssyni formanni, Jóni Jónssyni og Öldu Guðmundsdóttir afhenti skólanum glæsilega tölvu að verðmæti 250 þúsund að gjöf nú í vikunni. Tölvan er sérútbúin til vinnslu á stafrænum hreyfimyndum og kvikmyndum, með öllum nauðsynlegum fylgi- og klippibúnaði. Nú á vorönn verður skólinn einmitt með val í kvikmyndagerð undir stjórn Ástu Þórisdóttur, þannig að tölvan kemur á besta tíma.

Að sögn Ingimundar Pálssonar formanns Foreldrafélagsins hefur söfnun fyrir tölvunni staðið í tvö ár, en félagið hefur fært skólanum og nemendum hans ýmsar aðrar minni gjafir á tímabilinu, s.s. geislaspilara og segulbandstæki í allar kennslustofur, samlokugrill og öflugan leiserprentara, og einnig tekið þátt í að greiða fyrir fyrirlestra og leikhúsferðir sem boðið hefur verið upp á. Þá hefur félagið styrkt nemendafélagið með þátttöku í fjáröflun þess. Margvísleg fjáröflun fer fram á vegum Foreldrafélagsins, t.d. með sölu á bollum á bolludaginn, kaffisölu í árshátíð skólans, auk þess sem félagið hefur m.a. staðið fyrir bingói og spilakvöldum.

Ný stjórn verður kosin á aðalfundi Foreldrafélagsins á mánudaginn kemur, en tölvukaupin hafa lengi verið helsta markmið fráfarandi stjórnar.

 

Kristján Sigurðsson aðstoðarskólastjóri tekur við nýju tölvunni og er fjallkátur með gripinn – ljósm. Ingimundur Pálsson