22/12/2024

Flutningabíll valt við Bræðrabrekku

Flutningabíllinn utan vegarFlutningabíll valt við Bræðrabrekku í Bitrufirði í gærkvöld. Engin slys urðu á mönnum eftir því sem næst verður komist, en Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík var kölluð út í verðmætabjörgun því bíllinn var hlaðinn fiski. Vegarkanturinn gaf sig þar sem bíllinn valt við að mæta öðrum flutningabíl, en þar er einbreitt malbik og mjór vegur. Fyrir fáum dögum valt tengivagn aftan í flutningabíl á nánast sama stað þegar sá bíll var að mæta öðrum slíkum.

Ástand vega í Bitrufirði og á Ennishálsi er afar bágborið þetta vorið og þessir vegir bera engan veginn þá þungaumferð sem um þá fer. Í Hrútafirði var á síðasta ári hafist handa um að breikka veg þar sem einbreitt malbik var og er búið að bæta efni í vegarkantinn þó enn hafi ekki verið lagt malbik á spottann. Það hlýtur að koma til álita hjá Vegagerðinni og yfirvöldum samgöngumála að hefjast strax handa um samskonar aðgerðir í Bitrufirði þar sem hvert óhappið hefur orðið af öðru á einbreiða malbikinu, þó ekki verði strax lagt bundið slitlag á vegarkantinn sem þannig bætist við.

Þó að af nægum verkefnum sé að taka í samgöngumálum milli Hólmavíkur og Brúar í Hrútafirði hlýtur að vera einna efst á forgangslistanum að útrýma á þeirri leið einbreiðu malbiki á örmjóum vegum sem hljóta að teljast einhver stærstu hönnunarmistök samgönguyfirvalda á Ströndum.

Ljósm. Sigurður Atlason