Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík stendur fyrir flugeldasölu á þrettándanum í Björgunarsveitarhúsinu frá kl. 16-18. Allt að helmingsafsláttur er gefinn af varningnum. Um kvöldið verður svo flugeldasýning á hafnarsvæðinu á Hólmavík kl. 20 eins og undanfarin ár, ef veður leyfir.
Að sögn Úlfars Pálssonar hjá björgunarsveitinni Dagrenningu var sala fyrir gamlárskvöld í góðu lagi hvað varðar skottertur og fleiri jarðelda. Salan var hins vegar dræmari á flugeldum og má örugglega kenna um slæmri veðurspá sem gekk síðan ekki eftir.