Mikið fjör var á Dráttarvéladegi á Sauðfjársetrinu í Sævangi síðasta sunnudag. Þar kepptu menn í góðakstri á gömlum Massy Ferguson og sýndu margvísleg tilþrif í erfiðri þrautabraut. Þurftu menn að aka í gegnum brautina á góðum tíma, án þess þó að aka niður keilur sem afmörkuðu brautina. Einnig þurftu menn að gæta þess vandlega að aka ekki á fuglahræður og í lokin þurfti að leysa erfiða bakkþraut þar sem bakka þurfti með vagn. Loks urðu menn að gæta þess vel að Hamingju-Hrólfur, hliðvörðurinn í Sævangi, sem stóð á vagninum ylti ekki um koll og af vagninum. Ef það gerðist varð ökumaðurinn í refsingarskyni að stökkva af vélinni og sækja karlinn.
Jón Jónsson fór fyrstur um brautina og ók hratt. Kannski helst til hratt, því tvisvar þurfti hann að stökkva af vélinni og sækja Hamingju-Hrólf sem veltist út af pallinum.
Guðmundur Björgvin sparisjóðsstjóri á Hólmavík ók hins vegar gætilega og gerði engin mistök.
Allmargir þátttakendur tóku þátt í keppninni, bæði Strandamenn og gestir þeirra. Erlendum ferðamönnum sem voru á staðnum leist þó ekki á að taka þátt í keppninni þótt þeir væru úr sveit, fannst vélin í fullorðnari kantinum.
Frekar kalt var í veðri, en áhorfendur létu það ekki á sig fá. Ókeypis var inn á sögusýninguna í Sævangi og fjölmargir gestir notuðu sér það og skoðuðu sýnininguna, auk þess að hlýja sér í kaffihlaðborðinu.
Akstursleiðin lá um Orrustutanga, fyrir framan Sævang. Að mörgu þurfti að huga við aksturinn og hér er Jón Örn Haraldsson í brautinni.
Það vafðist helst fyrir mönnum að bakka í endamarkið, en hafðist þó alltaf að lokum. Kalli Þór sem sigraði í karlaflokki bakkaði hins vegar vandræðalaust í mark, fór villulaust í gegnum brautina og á ágætum tíma.
Auðunn Ingi Ragnarsson á Kollsá varð þriðji í karlaflokki (til vinstri á myndinni), Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum varð annar og Karl Þór Björnsson (til hægri) sigraði með glæsilegum og villulausum akstri.
Aðeins tveir keppendur voru í kvennaflokki, mæðgurnar Ásdís Jónsdóttir sem varð önnur og Svanhildur Jónsdóttir sem náði fyrsta sæti í ár, rétt eins og í öll önnur skipti sem dráttarvélardagur hefur verið haldinn af Sauðfjársetrinu.
Ljósm. Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir