22/12/2024

Fjölmennt á fundi Vestfjarðanefndar

Bækurnar bornar samanFjölmennt var á opnum fundi á Café Riis í gærkvöld þar sem skýrsla og tillögur Vestfjarðarnefndarinnar um atvinnulíf og uppbyggingu var til umræðu. Á fundinum voru allir nefndarmenn og sátu þeir fyrir svörum. Halldór Árnason skrifstofustjóri í Forsætisráðuneytinu fór yfir vinnu nefndarinnar og gerði grein fyrir að þær tillögur einar hefðu endað í skýrslunni sem ráðuneytin hefðu lýst stuðningi við og í raun fallist á að framfylgja. Það þýddi þó ekki að önnur verkefni væru úti í kuldanum til allrar framtíðar, heldur þyrfti í mörgum tilvikum að þróa hugmyndirnar betur og rökstyðja. Nefndin myndi starfa áfram og hún tæki enn við hugmyndum og ábendingum og fylgdi málum eftir í viðeigandi ráðuneytum.

Miklar umræður urðu um vinnu nefndarinnar og niðurstöður og komu margar áhugaverðar ábendingar fram. Virtust fundarmenn almennt á því að miklir möguleikar væru á uppbyggingu atvinnulífs og byggðar á Ströndum og Vestfjörðum öllum.

Fyrr um daginn fundaði nefndin annars vegar með sveitarstjórnarmönnum á Ströndum og hins vegar með aðstandendum Þjóðtrúarstofu sem fyrirhugað er að koma á laggirnar á Hólmavík og var ein af tillögum í skýrslunni.

Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði, Guðrún Þorleifsdóttir í Iðnaðarráðuneytinu, Halldór Árnason formaður nefndarinnar og Aðalsteinn Óskarsson framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða.