Það var spilað á 12 borðum á félagasvist á Hólmavík í gær sem Danmerkurfarar í skólanum á Hólmavík stóðu fyrir. Eftir spilamennskuna kom í ljós að hjónin Hugrún og Guðmundur á Kjarlaksvöllum í Saurbæ voru stigahæst í karla- og kvennaflokki og fengu veglega vinninga. Á óæðri enda stigatöflunnar voru Vignir Örn Pálsson og Símon Ingi Alfreðsson jafnir og fengu viðeigandi verðlaun, en Viktoría Rán Ólafsdóttir fékk setuverðlaun. Sigurvegararnir notuðu tækifærið og buðu Strandamenn velkomna á spilavist í Tjarnarlund í Saurbæ í kvöld, þriðjudaginn 29. desember kl. 20:00. Það er nemendafélagið í Auðarskóla sem stendur fyrir skemmtuninni, aðgangseyrir er 700.- og sjoppa á staðnum. Posi er ekki til staðar.
Spilavist á Hólmavík – ljósm. Jón Jónsson.