22/11/2024

Fjölmenni á afmæli KSH

Síðasta laugardag hélt Kaupfélag Steingrímsfjarðar upp á 110 ára afmæli sitt með pompi og prakt. Opið hús var í félagsheimilinu á Hólmavík í tilefni afmælisins og glæsilegt kökuhlaðborð á boðstólum fyrir gesti og gangandi. Jón Alfreðsson kaupfélagsstjóri skýrði frá úthlutunum úr Menningarsjóði Kaupfélagsins fyrir árið 2008 og afhenti styrkþegum skjal þess efnis, en Jón var síðan sjálfur heiðraður fyrir vel unnin störf í áratugi með gríðarstórum blómvendi og standandi lófataki frá veislugestum. Reikna má með að á bilinu 2-300 manns hafi mætt í samkomuna sem tókst afar vel.

Þeir sem fengu styrk frá Menningarsjóði Kaupfélagsins voru Kvennakórinn Norðurljós, Félag eldri borgara í Strandasýslu, Hafþór Ragnar Þórhallsson fyrir uppgerð handverkshúss, Bryggjuhátíð á Drangsnesi, Skíðafélag Strandamanna, fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is, Riishús á Borðeyri og ritið Strandir I.

Kaupfélagið var stofnað 29. desember 1898 á Heydalsá við Steingrímsfjörð og hét upphaflega Verslunarfélag Steingrímsfjarðar og var fyrst eins konar pöntunarfélag. Fljótlega var komið á fót verslun á Hólmavík á vegum Kaupfélagsins eða 1902, en Hólmavíkurþorp var varla til sem slíkt á þessum tíma.

S

Mikið fjölmenni var í afmælisveislunni.

Jón E. Alfreðsson hefur lestur á lista yfir styrkhafa úr menningarsjóðnum.

atburdir/580-kaupfelagsafmeli4.jpg

Hlíf Hrólfsdóttir úr Kvennakórnum Norðurljós tók við styrk til geisladiskaútgáfu frá Kaupfélaginu.

atburdir/580-kaupfelagsafmeli1.jpg

Að lokum var Jón sjálfur heiðraður á eftirminnilegan hátt. Hann hefur verið kaupfélagsstjóri frá árinu 1968, en hafði þá þegar unnið hjá félaginu í u.þ.b. 7 ár.

Ljósm. Arnar S. Jónsson