22/11/2024

Fjögur umferðaróhöpp á Vestfjörðum

Í vikunni sem var að líða voru tilkynnt um fjögur umferðaróhöpp til lögreglunnar á Vestfjörðum.
Á mánudag valt bíll á Eyrarhlíð á Djúpvegi eftir að hafa lent utan í vegriði og hafnaði loks á ljósastaur. Gerðist þetta í framhaldi af framúrakstri og má rekja óhappið til hálku. Ökumaður kenndi sér eymsla í baki og fór í skoðun á sjúkrahúsið á Ísafirði. Bifreiðin var óökuhæf og flutt af vettvangi með kranabíl. Tvö umferðaróhöpp urðu í Vestfjarðargöngum. Á fimmtudag skullu tvær bifreiðar saman í Súgundarfjarðarleggnum en ekki varð slys á fólki. Á föstudag ók bifreið utan í vegg ganganna, með þeim afleiðingum að bifreiðin varð óökuhæf og varð flytja hana af vettvangi með kranabíl. Ökumaður fór á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar.

Á sunnudag hafnaði bifreið út fyrir veg á Hnífsdalsvegi, í framhaldi af framúrakstri. Þrjú ungmenni voru í bifreiðinni, eftir óhappið voru þau flutt á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar, en bifreiðin var óökuhæf. Hálku er kennt um þetta óhapp. Lögregla vill brýna fyrir ökumönnum, sérstaklega ungum ökumönnum að aka varlega. Þessa dagana eru akstursskilyrði mjög slæm, víða hálka á vegum og erfitt getur verið að meta akstursskilyrði sem geta breyst með stuttum fyrirvaka.

Ökumaður var kærður fyrir meinta ölvun við akstur á Ísafirði aðfaranótt laugardagsins. Sá var heldur óánægður með afskipti lögreglu. Eftir að hann fékk þá þjónustu hjá lögreglu sem við átti jós hann úr skálum reiði sinnar yfir lögreglumenn, áður en hann yfirgaf lögreglustöðina. Hann sá sig svo knúinn til að taka ruslagám á hjólum við Grunnskólann á Ísafirði, rúlla honum út á gatnamót Austurvegar og Hafnarstrætis og þar sturtaði hann úr gámnum sem innihélt mest pappírsdrasl og jós því upp í vindinn, sem var allnokkur á þessum tíma, eingöngu til að ruslið dreifðist sem víðast. Umræddur má því einnig búast við kæru vegna þess. Kalla varð út bæjarstarfsmenn til að þrífa miðbæinn eftir atvikið.

Á miðvikudag var tilkynnt um þjófnað á bifreið á Ísafirði. Við rannsókn kom í ljós að nokkur ungmenni höfðu tekið bifreiðina traustataki og ekið bifreiðinni út fyrir bæinn og skemmt hana talsvert. Málið telst upplýst.

Einn ökumaður var tekinn fyrir of hraðan akstur á Djúpvegi, Arnkötludal, mældur á 105 km/klst. Enn og aftur að brýna fyrir ökumönnum að akstursskilyrði eru ekki góð þessa dagana.

Nokkrar aðstoðarbeiðnir bárust lögreglu vegna veðurs, aðallega vegna foks. Ekki var um mikið tjón að ræða í þessum tilfellum.