30/10/2024

Fjöður frá Bjarnarnesi hlaut 1. verðlaun

Fjöður frá Bjarnarnesi hlaut 1. verðlaun á kynbótasýningu á Gaddstaðaflötum við Hellu í síðasta mánuði. Fjöður er í eigu hjónanna Sigurbjargar Halldórsdóttur og Friðgeirs Höskuldssonar á Drangsnesi. Sigurbjörg og Friðgeir hafa stundað hrossarækt um árabil á Bjarnarnesi. Fjöður sem er undan Funa frá Bjarnarnesi og Flugu frá Bjarnarnesi stóð efst í 6 vetra flokknum á síðsumarssýningu á Gaddstaðaflötum með aðaleinkunnina 8,14. Til þess að hljóta 1. verðlaun sem kynbótahross þarf hrossið að fara yfir átta í aðaleinkunn.

Fyrir þá sem ekki vita er kynbótadómur tvískiptur, annars vegar er gefið fyrir sköpulag, (byggingardómur) m.a. fótagerð, hófa, höfuð o.s.frv. og hins vegar hæfileika s.s. tölt, brokk, skeið, stökk, vilji og geðslag, fegurð í reið svo eitthvað sé nefnt. Mikil vinna liggur að baki til að ná árangri í hrossrækt, sem felst m.a. í þjálfun og tamningu hrossanna, en mörg hundruð hross eru leidd fyrir dóm á hverju ári. Sem dæmi um það voru um 30 merar sýndar í sama flokki og Fjöður og af þeim hlutu aðeins fjórar merar 1. verðlaun. Þetta má því teljast mjög góður árangur hjá þeim hjónum og er takmark flestra ræktenda.

Fjöður frá Bjarnarnesi er eini kynbótahesturinn frá Ströndum sem hefur hlotið slíka upphefð, svo vitað sé.