30/10/2024

Fimm umferðaróhöpp í síðustu viku

Í fréttatilkynningu um verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum urðu fimm umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum í síðustu viku. Á  miðvikudaginn varð umferðaróhapp á Djúpvegi nr. 61 í Norðdal (sem liggur upp á Steingrímsfjarðarheiði). Þar rákust saman fólksbíll og flutningabíll með tengivagn, en ekki urðu slys á fólki. Þá var sama dag ekið utan í bíl við söluskála N1 á Patreksfirði, tjónvaldur lét sig hverfa af vettvangi og fannst ekki. Á föstudaginn urðu tvö óhöpp. Það fyrra varð á Ennishálsi á Ströndum, en þar hafnaði vöruflutningabíll út fyrir veg. Talsverðar skemmdir urðu á farm og bíl, en ökumann sakaði ekki. 

Þá var sama dag óhapp á Óshlíðinni, þegar fólksbíll ók á grjót sem var á veginum, ekki urðu slys á fólki.  Í gær varð svo bílvelta í Skötufirði, þar sem bíll hafnaði út fyrir veg. Farþegi í bílnum kenndi sér eymsla í baki og var fluttur með sjúkrabíl á Sjúkrahúsið á Ísafirði. 

Þá voru tveir ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur í umdæminu, þrátt fyrir að akstursskilyrði væru ekki sem best.

Í gær var veður orðið slæmt á norðanverðum Vestfjörðum og lítið ferðaveður. Þrátt fyrir það var talsverð umferð og lentu nokkrir vegfarendur í vandræðum vegna þess og var Björgunarfélag Ísafjarðar og björgunarsveitin á Hólmavík fengin til aðstoðar vegfarendum. Sama dag var lýst yfir óvissustigi vegna hættu á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum og stendur það enn í dag, mánudag.