22/12/2024

Ferðasumarið 2008 undirbúið

Ferðaþjónar á Ströndum er eflaust farnir að huga að sumrinu 2008, en flestir eru tilbúnir með verðskrár, opnunartíma og þess háttar um þetta leyti ársins. Upplýsingamiðstöðin á Hólmavík hyggst uppfæra vefsíðu sína fyrir áramótin, en á slóðinni www.holmavik.is/info eru meðal annars upplýsingar um alla ferðaþjóna á Ströndum og þá þjónustu sem þeir bjóða upp á. Eru þjónustuaðilar af þessu tilefni beðnir að lesa yfir sínar færslur og senda breytingar og leiðréttingar á netfangið info@holmavik.is. Sérstaklega er óskað eftir að þeir sem eru að hefja eða hætta starfsemi láti til sín heyra.

Fyrstu stóru bæklingarnir fyrir landið allt eru að koma úr prentsmiðjum þessa dagana og kynningarritið Áning 2008 kom út fyrir skemmstu. Þar er gefið yfirlit yfir þá gististaði, tjaldsvæði og sundlaugar sem kaupa auglýsingarkubb til birtingar í ritinu, ásamt því að greint er frá þeirri þjónustu sem þar er í boði og staðsetning sýnd á kortum. Bæklingurinn Áning er einn af þeim sem mest eru notaðir af innlendum og erlendum ferðamönnum, enda allar upplýsingar uppfærðar á ári hverju af auglýsendunum sjálfum sem kaupa sér birtingu í ritinu. 

Gistihús á Ströndum sem auglýsa í Áningu 2008 eru að þessu sinni Gistiheimilið Bergistangi, Finnbogastaðaskóli, Hótel Djúpavík, Malarhorn, Gistiheimilið Borgabraut, Ferðaþjónustan Kirkjuból og Snartartunga í Bitrufirði. Auk þessara gististaða eru 6 aðrir aðilar sem selja gistingu innandyra á Ströndum.

Tjaldsvæði sem auglýsa í Áningu 2008 eru tjaldsvæðin á Hólmavík og Drangsnesi, en auk þeirra eru 5 önnur tjaldsvæði á Ströndum.

Þá eru þrjár af fjórum sundlaugum á Ströndum auglýstar í Áningu, Gvendarlaug hins góða á Klúku, Sundlaugin á Drangsnesi og Íþróttamiðstöð Hólmavíkurhrepps. Auglýstur opnunartími í þessum sundlaugum sumarið 2008 er frá 10-21 alla daga í Gvendarlaug, en 9-21 alla daga á Drangsnesi og Hólmavík.