21/11/2024

Félagsheimilið Sævangur 50 ára

Í dag, 14. júlí 2007, eru liðin 50 ár frá því að Félagsheimilið Sævangur var formlega vígt og er í tilefni þess veglegt kaffihlaðborð á boðstólum í dag hjá Sauðfjársetrinu sem nú er til húsa í Sævangi með safn, kaffistofu og handverksbúð. Einnig fer í dag fram Héraðsmót HSS í frjálsum íþróttum á Sævangsvelli og hefst kl. 11:00 og eru allir hjartanlega velkomnir að fylgjast með því. Sævangur var að töluverðu leyti byggður í sjálfboðavinnu af íbúum Tungusveitar og var áratugum saman helsta samkomuhús og skemmtistaður Strandamanna, þangað komu leikfélög með sýningar og kórar með tónleika og böllin í Sævangi voru landsþekkt. Íþróttavöllurinn við húsið var notaður af krafti í keppni í frjálsum íþróttum og fótbolta.