12/12/2024

Færð og veður

Tengivagn í ógöngumÓfært er um Bjarnarfjarðarháls og norður í Árneshrepp. Þungfært er á Selströnd að Drangsnesi og sömuleiðis er þungfært í Bjarnarfjörð. Mokstur stendur yfir á þessum leiðum nú kl. 10:00. Snjór er á öllum öðrum vegum á Ströndum og færð er fljót að spillast þar sem skaflar eru fyrir. Mokstur er þó í gangi. Sunnan Stikuháls er hálka á vegi samkvæmt vef Vegagerðarinnar. Veðurútlit næsta sólarhringinn er þokkalegt, í dag verða norðan 10-15 m/s og él en lægir og léttir heldur til síðdegis. Frost verður á bilinu 3 til 10 stig, kaldast í nótt.

Ofan við Broddadalsá í Kollafirði var tengivagn aftan úr flutningabíl í ógöngum þegar fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is – Jón Jónsson – átti leið þar hjá nú í morgun. Þar eru tveir miklir skaflar. Í fyrradag, 10. janúar, fór fólksbíll út af veginum í Ennishálsinum sunnanverðum. Bíllinn sá hélt tangarhaldi í vegbrúnina með einu hjóli þar til Vegagerðarmenn komu og björguðu honum upp.

Það er því fyllsta ástæða til að hvetja menn að fara varlega í vetrarumferðinni á Ströndum.