22/12/2024

Færð á vegum

Nú er snjór á vegumTöluverð ofankoma var seinnipartinn í gær, skafrenningur og él. Snjór er á vegi suður sýslu frá Hólmavík nú kl. 8:40, en mokstur stendur yfir. Hálka er veruleg eins og áður. Á vef Vegagerðarinnar er merkt þungfært um Bjarnarfjarðarháls en þæfingur frá Drangsnesi í Bjarnarfjörð.

Ófært er í Árneshrepp og ekki verður opnað þangað á næstunni, samkvæmt fréttavefnum www.litlihjalli.it.is. Þar var mokað innansveitar í gær, allt frá Djúpavík í Munaðarnes. Slíkt kemur ekki fram á vef Vegagerðarinnar, því vegurinn norður og vegurinn fyrir norðan virðast ávallt merktir eins.

Sama gildir reyndar um veginn frá Guðlaugsvík til Hólmavíkur sem er allur merktur eins á upplýsingavef Vegagerðarinnar og tekur þá jafnan mið af aðstæðum á Ennishálsi. Þetta skiptir auðvitað litlu fyrir langferðamenn, en getur verið óþægilegt fyrir íbúa enda má segja að Kollafjörður og Hólmavík séu eitt atvinnusvæði.

Eftir sem áður er óhætt að fullyrða að þessi upplýsingavefur Vegagerðarinnar um umferð, veður og færð, ásamt veðurmyndavélunum á Ennishálsi og Steingrímsfjarðarheiði, er ákaflega mikilvægur og í raun bylting í upplýsingaþjónustu fyrir ferðalanga á Ströndum jafnt sem annars staðar á landinu.

Tengla á nýjustu upplýsingar um veður og færð má nálgast hér.