23/12/2024

Fær gamli vatnstankurinn nýtt hlutverk?

Strandabyggð hefur borist erindi frá Elísabetu Pálsdóttur og Sævari Benediktssyni á Hólmavík þar sem þau óska eftir að kaupa gamla vatnstankinn fyrir ofan kirkjuna á Hólmavík. Þar hyggjast þau byggja upp aðstöðu fyrir viðburði tengda menningu og listum. Á síðasta fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar var samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra að svara erindinu frá Elísabetu og Sævari í samræmi við umræður, eins og segir í fundargerðinni, og afla nánari upplýsinga. Ekkert er bókað frekar um umræðurnar. Á síðasta ári var samþykkt í sveitarstjórn Strandabyggðar að rífa vatnstankinn, en ekkert hefur orðið úr því enn.

Á Borgarfirði eystra var gamall vatnstankur seldur fólki í þorpinu í vor og eru hugmyndir um að gefa honum hlutverk við að efla ferðaþjónustu, menningarstarf og listir. Vinna við það er reyndar komin á gott skrið þar eystra. Einnig má nefna að á Flateyri var gamall lýsistankur innréttaður sem hljóðver fyrir skömmu.