"Faðir fyrirgef þeim því þeir vita ei hvað þeir gjöra" var það sem kom upp í huga ljósmyndara þegar hann gekk framhjá Höfðanum núna seinnipartinn. Þar sem hinn aldni eikarbátur Hilmir stóð áður hefur nú verið komið fyrir vönduðum krossi með nokkrum friðarkertum í kring. Það hefur heldur bæst á fjölda þeirra er á eftirmiðdaginn hefur liðið. Hilmir ST-1 var rifinn í gær með stórvirkri vél eftir dygga þjónustu í hartnær hálfa öld. Ljósmyndara hefur borist til eyrna að stefnt sé að erfidrykkju Hilmis klukkan 22:00 annað kvöld á Café Riis, en þá opnar barinn og í framhaldi af því verður leikið fyrir dansi.
Ljósm.: Sigurður Atlason